Landic Property vinnur nú að því að móta nýja stefnu fyrir félagið í kjölfarið á miklum breytingum á alþjóðlegum fjármálamörkuðum. Vinnan felur m.a. í sér úttekt á rekstri og efnahag félagsins með það að markmiði að styrkja fjárhagsstöðu þess.
Landic Property hefur samið við UBS Investment Bank og Catella Corporate Finance um ráðgjöf við stefnumótunina. Niðurstöðu er að vænta fyrir lok janúar 2009. Stoðir eiga tæp 40% í Landic Property. Landic Property er með starfsemi í Danmörku, Íslandi, Svíþjóð og Finnlandi.
„Ég er bjartsýnn eftir frumviðræður við helstu hagsmunaaðila félagsins að þessi vinna skili góðum árangri og að eftir standi sterkt fasteignafélag. Áhugi hefur komið fram um að fjárfesta í félaginu að sögn Viðars Þorkelssonar forstjóra Landic Porterty, í tilkynningu.
Að sögn Viðars er fyrst og fremst verið að vinna að stefnumótun fyrir félagið þar sem bæði reksturinn sjálfur og fjármagnsskipan félagsins er skoðuð.
Hann segir að staðan á alþjóðlegum fjármálamörkuðum og sú staða sem uppi er á Íslandi kalli á endurskipulagningu á rekstri félagsins. Hins vegar hafi Landic Property ekki selt úr eignasafni sínu nýlega. Hann segir að staðan verði endurmetin þegar stefnumótunarvinnu lýkur í næsta mánuði og þá verði ákveðið hvort eignir verði seldar út úr félaginu.
Viðar segir að ljóst sé að aðstæður á mörkuðum nú séu afar krefjandi og kalli á að félagið lagi sinn efnahagsreikning að því meðal annars með því að styrkja fjárhagsstöðu sína.
Meðal verkefna sem stefnt var að hjá Landic Property er bygging á hafnarsvæðinu í Árósum í Danmörku. Viðar segir að ekki hafi verið hætt við það verkefni en það endurskipulagt. Það er búið að breyta nálguninni á verkefninu, segir Viðar. Því hafi verið skipt upp í tvennt. Annars vegar byggingu tveggja íbúðablokka og hótels og byggingu háhýsis, sem nefnist Vitinn, hins vegar.
Viðar segir að bygging háhýsisins hafi verið slegið á frest en ætlunin var að þar yrðu 300 lúxusíbúðir í 140 metra háum turni. „Eins og aðstæður eru í Danmörku og víðar er ljóst að það er ekki sami markaðurinn fyrir slíkar byggingar og var," segir Viðar.
Hann segir að unnið sé að því að finna skynsama lendingu í því máli í samstarfi við bæjaryfirvöld. Hins vegar sé stefnt að byggingu íbúðablokkanna og hótelsins. Það sé unnið í samstarfi við bæjaryfirvöld og fjármögnunaraðila og sú vinna gangi ágætlega.
Helstu hluthafar í Landic Property: Stoðir 39.8%, Ingibjörg Pálmadóttir / 101 Capital / ISP ehf. 16.4%, Stapi fjárfestingarfélag ehf. 13.0%, Stytta ehf. 7.5%, Nýi Glitnir 5.9%, NBI hf. (Nýi Landsbankinn) 5.4%, Arion safnreikningur 3% og Fjárfestingafélagið Máttur ehf. 2.8%.