Geir H. Haarde forsætisráðherra segist ekki viss um hvaða samskipti hafi átt sér stað milli íslenska Fjármálaeftirlitsins (FME) og þess breska (FSA) eftir að íslenski seðlabankinn veitti Kaupþing þrautavarnarlán í aðdraganda falls bankans. Í viðtali við BBC er Geir spurður um hvort að bresk stjórnvöld hafi vitað af láninu þegar þau gripu til aðgerða gegn Singer & Friedlander (S&F), dótturfélagi Kaupþings, sem leiddi að endingu til þess að S&F féll. Hrun Kaupþings er rakið til þess þrots.
Í viðtalinu ræðir Geir einnig um mögulega lögsókn Íslendinga á hendur Bretum vegna falls Kaupþings. Þar segir hann að íslensk stjórnvöld séu að láta athuga hvort aðgerðir breskra fjármálayfirvalda hafi leitt til þess að S&F fór í þrot. Samkvæmt frétt BBC um málið gæti breska ríkið þurft að greiða nokkra milljarða punda í skaðabætur til íslenskra stjórnvalda og kröfuhafa gamla Kaupþings ef þau myndu tapa málsókn vegna aðgerða sinna í garð S&F.