Fréttaskýring: Leysa núllprósent vextir vandann í Bandaríkjunum?

Ben Bernanke, seðlabankastjóri Bandaríkjanna.
Ben Bernanke, seðlabankastjóri Bandaríkjanna. Reuters

Lækkun seðlabanka Bandaríkjanna á stýrivöxtum úr 1% niður 0-0,25% þykir einhver róttækasta efnahagsaðgerð í sögu Bandaríkjanna en er jafnframt til marks um þá örvæntingu sem farið er að gæta hjá yfirvöldum vegna efnahagskreppunnar sem dýpkar stöðugt.

Flestir höfðu reiknað með vaxtalækkun í 0,5% en með lækkun allt niður í 0% eru Bandaríkin farin að feta í fótspor Japans sem beitti 0% vöxtum um árabil í baráttunni gegn verðhjöðnun.

Þótt þessi lækkun marki tímamót er hún að miklu leyti táknræn. Stýrivextirnir hafa aðallega áhrif á hvað bankarnir sjálfir leggja á lán sín á milli, og þeir vextir voru þegar fallnir niður undir  0% vegna þess að það voru nánast engin viðskipti milli bankanna.

The New York Times segir í dag að miklu meira skipti að Seðlabankinn hafi í yfirlýsingu sinni sagt hreint út að hann myndi auka seðlaprentunina eins mikið og það tæki til að hreyfa við gaddfreðnum lánamarkaðinum og takast á við verstu efnahagslægð sem myndast hefur í landinu allt frá því í síðari heimstyrjöldinni.

Í reynd þýði þetta að seðlabankinn stigi fram sem eins konar varaskeifa fyrir banka og aðrar lánastofnanir og hagi sér nánast eins og hann væri venjulegur banki. Seðlabankinn segist muni beita „öllum tiltækum tækjum“ til að vinna að endurreisn efnahagslegs vaxtar á nýjan leik. Þessi „tæki“ eru meðal annars kaup bankans í stórum stíl á alls kyns veðtryggðum skuldabréfum, ríkisbréfum, skuldabréfum fyrirtækja og jafnvel neytendalánum á borð við greiðslukortalán.

Í The New York Times er bent á að aðgerðir seðlabankans hafi tekið gildi á sama tíma og Barack Obama, verðandi forseti, kallaði efnahagsráðgjafa sína til fjögurra klukkustunda fundar í Chicago til að leggja línurnar fyrir risavaxna áætlun sem á að örva hagkerfið og koma gangverki þess af stað á ný en þessi áætlun er sögð geta kostað á bilinu 600 milljarða dala uppi í billjón dala.

Uppiskroppa með hefðbundin vopn

„Við erum uppiskroppa með hefðbundin vopn í viðureigninni við samdráttinn sem er að lækka vextina,“ sagði Obama við blaðamenn eftir fundinn. „Nú ríður á að aðrar greinar stjórnsýslunnar herði róðurinn og því er efnahagsleg björgunaráætlun svo mikilvæg.“

Á Bloomberg-vefnum er því haldið fram að í nýrri stefnumörkun felist óvenju náin samvinna á milli fjármálaráðuneytis ríkisstjórnar Obama og bandaríska seðlabankans. „Það mun þurfa sambland af örvunaraðgerðum bæði í ríkisfjármálum og peningamálastefnunni ef þetta á að takast, “ er þar haft fyrrum yfirmanni í seðlabankanum og nú efnahagsráðgjafa hjá Stanford Group Co. í Washington.

Til marks um þessa nánu samvinnu ríkisstjórnar og seðlabanka er vafalaust að nýr fjármálaráðherra í verðandi ríkisstjórn Obama er einmitt Timothy Geithner, yfirmaður seðlabankans í New York og nánasti ráðgjafi Ben Bernanke seðlabankastjóra Bandaríkjanna í neyðarlánaaðgerðum sem Seðlabanki Bandaríkjunum hefur gripið til á undaförnum mánuðum.

Í bloggi sínu í The New York Times er Nóbelsverðlaunahafanum Paul Krugman nokkuð brugðið við tíðindin:

„Núllprósent vaxtastefna. Hún er brostin á. Bandaríkin eru orðin að Japan.

Þetta er það sem ég hef óttast allt frá því að ég gerði mér grein fyrir því að Japan var raunverulega fast í hræðilegri, hugsanlega goðsögulegri greiðsluflæðisgildru.

Svo vildi til að við vorum þarna nokkrir í Princeton og höfðum áhyggjur af vanda Japans snemma á þessum áratug. Einn þeirra var ég, Lars Svensson, nú hjá sænska seðlabankanum, var annar; sá þriðji var náungi að nafni Ben Bernanke. Hvað skyldi hafa orðið um hann?

Að öllum gamni slepptu, við erum í miklum vanda. Að komast út úr þessu mun krefjast mikillar skapandi hugsunar, og kannski eitthvað af heppni líka."

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK