Fjölmargir seðlabankar hafa undanfarið lækkað stýrivexti sína, þar á meðal sá bandaríski sem lækkaði stýrivexti í 0-0,25% í gær. Þessi þróun hefur orðið til að auka verulega vaxtamun milli Íslands og helstu myntsvæða og eru stýrivextir væntanlega hvergi jafn háir og á Íslandi en þeir eru 18%.
Af helstu myntsvæðum eru stýrivextir nú hæstir á evrusvæði, 2,5%, stýrivextir í Bretlandi eru nú 2% en í Sviss, Japan og Bandaríkjunum eru stýrivextir nú innan við 1%. Er búist við frekari lækkun vaxta á evrusvæði og í Bretlandi, að því er segir í Morgunkorni Greiningar Glitnis.
„Hér á landi eru hins vegar stýrivextir einir þeir hæstu á byggðu bóli eftir hækkun þeirra í 18%. Má segja að það skjóti býsna skökku við að það land meðal þróaðra ríkja sem líklega mun ganga í gegnum krappastan samdrátt á komandi misserum búi við langhæstu stýrivextina.
Hins vegar má gera ráð fyrir að þessi gífurlegi vaxtamunur slái á löngun fjárfesta til þess að færa eignir sínar úr krónum þegar gjaldeyrishöftum verður aflétt. Sem dæmi um þetta má nefna að þeir sem kjósa að geyma fjármuni á innlendum gjaldeyrisreikningum fá afar lága ávöxtun fyrir vikið á meðan skammtímareikningar í krónum og innlend ríkistryggð skammtímaskuldabréf gefa allt að 1,4% ávöxtun á mánuði í aðra hönd.
Með öðrum orðum er skammtímaávöxtun fjármagns í krónum meiri í mánuði hverjum heldur en búast má við að fáist næsta árið í sumum helstu myntum. Þarf því mikla svartsýni á þróun krónu til þess að kjósa að halda fjármunum sínum í öðrum myntum þessa dagana," að því er segir í Morgunkorni Glitnis.