Íslendingar buðu hátt í D'Angleterre

Hótel D´Angleterre
Hótel D´Angleterre

Íslensk-lettneska fjárfestingarfélagið Nordic Partners bauð á síðasta ári 1,4 milljarða danskra króna, jafnvirði 29 milljarða íslenskra króna að núvirði, í hótel og veitingastaði dönsku Remmenfjölskyldunnar en meðal þeirra hótela var lúxushótelið D'Angleterre við Kóngsins Nýjatorg. Var þetta tvöfalt hærri upphæð en hótelin höfðu verið metin á.

Þetta kom fram í réttahöldum í Kaupmannahöfn í gær en þar krefur  fasteignamiðlari Remmenfjölskylduna um 20 milljónir danskra króna í umboðslaun vegna viðskiptanna. 

Með þessu móti ýtti Nordic Partner öðrum áhugasömum kaupendum út af borðinu, þar á meðal fjárfestinum Mikael Goldschmidt og Claus Hildebrandt frá Ascot hótelkeðjunni. Þeir höfðu átt í viðræðum við Remmenfjölskylduna um kaup á hótelunum en fyrir allt annað og lægra verð.

Danska blaðið Berlingske Tidende segir, að enn hafi ekki komið í ljós hve mikið Íslendingarnir greiddu á endanum fyrir hótelin d’Angleterre, Kong Frederik og Front og veitingahúsið Copenhagen Corner. Þá kom heldur ekki fram við réttarhöldin hvort annað hefði fylgt með í kaupunum, svo sem lystisnekkja Remmenfjölskyldunnar, d’Angleterre II de Copenhague. Hins vegar hafi tilboð Íslendinganna verið það hátt að aðrir hugsanlegir kaupendur drógu sig í hlé en samningar héldu áfram við Nordic Partners.

Berlingske segir að hávær orðrómur sé um að núverandi eigendur hótelanna eigi í rekstrarerfiðleikum en þau hafi ekki verið sett á sölulista. Það hafi ekki orðið til að varpa ljósi á stöðuna, að Landsbankinn í Lúxemborg, sem tekinn var til gjaldþrotaskipta í síðustu viku, sé skráður sem aðaleigandi Nordic Partners í síðasta opinbera ársreikningi félagsins og hafi jafnframt fjármagnað hótelkaupin.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK