Seðlabanki Noregs lækkaði stýrivexti um 1,75 prósentustig í 3% í dag til að örva efnahagslífið þar í landi. Er þetta mesta vaxtalækkun bankans í rúm 22 ár og hafa stýrivextir ekki verið lægri í Noregi síðan í ágúst 2006.
Búist var við vaxtalækkun en ekki svona mikilli. Jan Qvigstad, seðlabankastjóri, segir í yfirlýsingu að hagvaxtarhorfur í Noregi hafi versnað til muna frá því í október.
Á sama tíma sé verðbólga að minnka meira en búist var við. Því bendi heildarmat á aðstæðum til þess, að viðeigandi sé að lækka stýrivextina verulega nú.
Sérfræðingar höfðu búist við að stýrivextir yrðu í mesta lagi lækkaðir um 1 prósentu og frekari vaxtalækkun biði janúarloka. Verg landsframleiðsla dróst saman um 0,7% á þriðja ársfjórðungi vegna samdráttar í olíu- og gasframleiðslu.