Riftun er til skoðunar en engin ákvörðun hefur verið tekin,“ segir Finnur Sveinbjörnsson, bankastjóri Nýja Kaupþings, um ákvörðun um niðurfellingu ábyrgða vegna lána sem lykilstarfsmenn gamla Kaupþings, sem margir hverjir vinna hjá nýja bankanum, fengu til kaupa á hlutabréfum í bankanum.
Gerð voru drög að kaupréttarkerfi bankans árið 2003 og voru þau lögð fyrir Fjármálaeftirlitið sem gerði engar athugasemdir. Í drögunum var ekki gert ráð fyrir að starfsmenn myndu bera áhættu ef bréf bankans lækkuðu. Á aðalfundi Kaupþings 2004 var samþykkt að stefna að því starfsmenn eignuðust allt að 9% hlutafjár í bankanum. Í samþykktinni var jafnframt áréttað að starfsmenn bæru ekki persónulega ábyrgð ef illa færi.
Stjórn Kaupþings samþykkti því haustið 2005 að draga úr persónulegri áhættu starfsmanna af lántökum vegna hlutabréfakaupanna. Lánasamningar voru útbúnir þannig að starfsmenn bæru ábyrgð á 10% af lánsupphæðum og jafnframt var gengið frá lánunum þannig að bréfin yrðu seld í tæka tíð áður en á ábyrgð reyndi. Í byrjun þessa árs lá fyrir að þetta kerfi væri nokkuð gallað, því starfsmenn myndu hlaupa fyrstir frá bankanum og selja bréfin sín ef þau tækju að lækka í verði. Ef lykilstarfsmenn hefðu hafið stórfellda sölu á bréfunum hefði það haft í för með sér mikið tjón fyrir bankann á þeim tíma. Því voru persónulegar ábyrgðir felldar niður af stjórn Kaupþings hinn 25. september sl.
Eftir hrun bankans lagði hópur stjórnenda til að lán starfsmanna yrðu innheimt í samræmi við almennar reglur og fallið yrði frá niðurfellingu ábyrgðar.