Fjármálaráðherra Lúxemborgar hefur skrifað undir viljayfirlýsingu um sölu á Kaupþing í Lúxemborg. Kaupandinn er hópur arabískra fjárfesta, samkvæmt frétt Reuters. Fjármálaráðherra Belgíu þarf einnig að skrifa undir söluna áður en gengið verður endanlega frá henni.
Eins og komið hefur fram í fréttum Morgunblaðsins þurfa nýir fjárfestar sem kaupa bankann að leggja honum til um tuttugu milljarða króna í nýtt hlutafé svo hann verði starfhæfur aftur. Skuldbindingar þeirra sem kaupa bankann eru miklar en innlán í bankanum eru allt að 800 milljónir evra.
280 starfa í bankanum, þar af átján Íslendingar. Bankinn var dótturfyrirtæki Kaupþings hér heima, stofnaður snemma á árinu 1998, þá sem verðbréfafyrirtæki. Auk þess að starfa í Lúxemborg voru útibú í Sviss og Hollandi.
Í frétt Reuters kemur fram að nokkrir mögulegir kaupendur hafi verið nefndir. Þar megi nefna fjárfestingasjóð í eigu stjórnvalda í Líbýu, netbankinn Keytrade Bank, sem er dótturfélag franska bankans og þýski bankinn Landesbank Nord.