Ekki var jafnræði með hluthöfum VÍS þegar VÍS og Exista voru sameinuð. Eignarhaldsfélag Samvinnutrygginga, sem síðar varð hlutafélagið Gift, eignaðist hlut í Exista með sameiningunni. Það gerði líka Hesteyri ehf., sem var að þriðjungi í eigu Samvinnutrygginga, en aðrir eigendur Hesteyrar voru Skinney-Þinganes í eigu Halldórs Ásgrímssonar og fjölskyldu og Fiskiðjan Skagfirðingur.
Þegar stjórn Giftar vildi minnka hlut sinn í Exista kom í ljós að það var ekki hægt, vegna samkomulags við Exista um að ekki yrði selt fyrr en 2008. Hendur Hesteyrar voru hins vegar ekki bundnar og félagið seldi sinn hlut.
VÍS hafði orðið til árið 1989 með sameiningu Brunabótafélags Íslands og Samvinnutrygginga. Eignarhaldsfélagið Andvaka bættist í eigendahóp VÍS þegar Lífís varð hluti af félaginu.
Andvaka var að helmingi í eigu Samvinnutrygginga, síðar Giftar, og þá áttu Samvinnutryggingar þriðjung í Hesteyri. Aðrir eigendur Hesteyrar voru Skinney-Þinganes, félag í eigu Halldórs Ásgrímssonar og fjölskyldu, og Fiskiðjan Skagfirðingur, síðar FISK Seafood. Fiskiðjan er dótturfélag Kaupfélags Skagfirðinga, en kaupfélagsstjórinn, Þórólfur Gíslason, var jafnframt stjórnarformaður Samvinnutrygginga.
Á stjórnarfundi í Gift hinn 7. nóvember var eignarhluti félagsins í Exista gerður að umtalsefni. Töldu sumir stjórnarmenn að óvarlegt væri að meira en helmingur eigna Giftar væri í Exista og hlutdeildarfélögum og var lögð fram tillaga um að eignarhlutur Giftar í þessum félögum yrði minnkaður. Samkvæmt fundargerðum, sem Morgunblaðið hefur undir höndum, greindi stjórnarformaðurinn, Þórólfur Gíslason, þá frá „óformlegu samkomulagi“ við Exista um að hlutur Giftar yrði ekki seldur fyrr en á árinu 2008.
Hendur Hesteyrar voru hins vegar ekki bundnar á sama hátt, en eins og áður segir á dótturfélag Kaupfélags Skagfirðinga, sem Þórólfur Gíslason stýrir, þriðjungshlut í Hesteyri. Hinn 22. desember 2006 barst tilkynning til Kauphallarinnar um að Hesteyri hefði selt 1,91% í Exista og var í fjölmiðlum talað um að sölugengið hefði verið 23. Fékk Hesteyri því 4,9 milljarða króna fyrir hlutinn. Eftir söluna átti Hesteyri 3,82% í Exista og voru viðskipti félagsins með hluti í Exista því ekki lengur tilkynningarskyld.