Meirhluti þeirra sem áttu peninga inni á Icesave-reikningum Landsbankans í Bretlandi hefur fengið þá greidda út. Þetta kemur fram í frétt á bresku fréttaveitunni The Press Association. Segir þar að fyrir tilstuðlan aðgerða breskra stjórnvalda hafi tekist að tryggja greiðslur til fólks.
Samtals voru um 215 þúsund innlánsreikningar á Icesave í Bretlandi og segir í fréttinni að yfir 199 þúsund reikningseigendur hafi nú fengið peninga sína greidda með aðstoð tryggingasjóðs innlána þar í landi. Eru þeir sem eftir eiga að fá greitt hvattir til að tilkynna kröfur sínar til tryggingasjóðsins. Samtals hafa verið greiddir úr 3,52 milljarðar punda.