Verð á gasi mun hækka á næstunni vegna aukins kostnaðar við framleiðslu þess, sem stafar af fjármálakreppunni í heiminum. Þetta kom fram í máli Vladimirs Putin, forsætisráðherra Rússlands, á ráðstefnu um gasmarkaðinn í Moskvu í dag.
Á ráðstefnunni voru fulltrúar nokkurra helstu gasframleiðsluþjóða heims. Þjóðirnar hafa ekki myndað formleg samtök eins og t.d. helstu olíuútflutningsríkin hafa gert með OPEC-samtökunum. Þær hafa hins vegar hist öðru hverju frá því á árinu 2001 til að bera saman bækur sínar. Þá er talið að þær stefni að því að bindast sterkari böndum til að gæta sameiginlegra hagsmuna sinna á þessu sviði.
Í frétt AP-fréttastofunnar segir að sérfræðingar séu ekki sammála því mati Putins að verð á gasi muni fara hækkandi á næstunni. Það sama gæti þvert á móti gerst, eins og við á um olíuna, að vegna fjármálakreppunnar þá muni draga úr eftirspurn eftir gasi, og verðið muni því lækka.