Hvorki gamli né nýi Glitnir geta farið með virkan eignarhlut í Moderna Finance A.B., dótturfélagi Milestone, þar sem ekki eru taldar líkur á því að sænska fjármálaeftirlitið (FI) myndi samþykkja slíkt.
Öll meginstarfsemi Milestone er í Svíþjóð og íslenskar eignir félagsins heyra undir Moderna, þar á meðal Sjóvá og Askar Capital. Því fer FI með allt samræmt eftirlit með eignum Milestone og þarf að samþykkja hvort að aðilar geti farið með eignarhluti í skráðum og eftirlitsskyldum félögum.
FI hefur hins vegar þegar samþykkt að Milestone geti farið með virkan eignarhlut í sænsku fjármálafyrirtæki og því herma heimildir Morgunblaðsins að stærstu lánardrottnar telji farsælustu leiðina til að halda eignum Milestone í rekstri sé að láta fyrri eigendur fara áfram með stjórn félagsins. Glitnir er helsti lánardrottinn Milestone og er með veð í hlutabréfum Moderna.Líkt og greint hefur verið frá í Morgunblaðinu undanfarna daga er flókin endurskipulagning á fjárhagslegri uppbyggingu Milestone á lokastigi. Hún gerir ráð fyrir því að núverandi eigendur félagsins, Karl og Steingrímur Wernerssynir, og stjórnendur þess reki það áfram.
Eignir Milestone eru í dag metnar á 60 milljarða króna en skuldir þess á 115 milljarða króna. Lánardrottnar munu, samkvæmt þessari leið breyta 53% krafna sinna í lán, og afgangur krafnanna breytist í rétt til að eignast hlutabréf í Milestone. Núverandi eigendur eiga ekkert í félaginu miðað við þetta verðmat en gætu fengið 13 % eignarhlut ef eignir hækka umfram þessa 60 milljarða króna. Heimildir Morgunblaðsins innan Glitnis herma að með þessum hætti telji skilanefnd bankans að sem mest verðmæti náist til baka.
Ástæðan fyrir því að gamli Glitnir, og skilanefnd hans getur ekki farið með virkan eignarhlut í Moderna er vegna þess að hann er þrotabú. Slík geta ekki farið með virkan eignarhlut í eftirlitsskyldum félögum.