Sú ákvörðun stjórnar Kaupþings frá 25. september sl. að fella niður persónulegar ábyrgðir vegna lána til lykilstjórnenda bankans er mögulega tekjuskattskyld, samkvæmt upplýsingum frá embætti ríkisskattstjóra.
Samkvæmt 7. gr. laga um tekjuskatt teljast skattskyldar tekjur hvers konar gæði, arður laun og hagnaður sem skattaðila hlotnast og metin verða til peningaverðs og skiptir ekki máli hvaðan þær stafa og í hvaða formi þær eru.
Í grein Elínar Ölmu Arthursdóttur í nýjasta tölublaði Tíundar, tímarits embættis ríkisskattstjóra, segir að eftirgjöf skulda launamanns við launagreiðanda sé almennt skattskyldar tekjur í hendi launamannsins sem skattleggja beri á sama háttt og hverjar aðrar launatekjur.Þær upplýsingar fengust hjá embættinu að grein Elínar og þau sjónarmið sem þar eru reifuð sé opinber afstaða embættisins þegar komi að þessu álitaefni.
Ef skuldir eru felldar niður telst ívilnunin sem í slíku fellst skattskyldar tekjur á grundvelli laga um tekjuskatt nema í vissum tilvikum, t.d. þegar eftirgjöfin tengist gjaldþroti viðkomandi einstaklings eða nauðasamningum. Ívilnun sú sem fólst í ákvörðun stjórnar Kaupþings frá 25. september sl. um að fella niður persónulega ábyrgð hjá stjórnendum Kaupþings, sem ekki er hægt að túlka öðruvísi en sem niðurfellingu skulda, fellur ekki undir slík tilvik og er því skattskyld á grundvelli laga um tekjuskatt.