Jólaútsölur í Bretlandi eru komnar á fullt og dæmi um allt að 90% afslátt, samkvæmt frásögn á vef Daily Telegraph. Strax að kvöldi jóladags var hægt að að gera góð kaup í netverslun en í dag munu verslanir á borð við Debenhams, House of Fraser, Topshop, Comet, Liberty og New Look opna með miklum afslætti í boði. Útsölur í verslunum Harrods, Marks & Spencer, Next og John Lewis munu hefjast á morgun, laugardag.
Debenhams hyggst bjóða upp á 70% afslátt og og Tesco reiknar með að jólaútsölurnar skili þeim um 100 milljónum punda í kassann.
Ráðgjafafyrirtækið Ernst & Young hefur spáð því að afsláttur í breskri verslun eftir jólin verði að jafnaði 56,7%, borið saman við 52,6% á síðasta ári. Neytendur muni að öllum líkindum ekki hafa séð jafn lágt vöruverð í langan tíma.
Netverslunin hófst þegar að kvöldi jóladags og talið að þá hafi 5 milljón manns verslað fyrir um 104 milljónir punda.