Íslensk stjórnvöld eru samkvæmt frásögn á fréttavef Daily Mail í kvöld sögð ætla að leita sér ráðgjafar í London um framtíð þeirra fjárfestinga sem íslensku bankarnir, einkum Landsbankinn, fjármögnuðu í breskri smásöluverslun. Er þar m.a. vísað til sölu á verslanakeðju Whittard of Chelsea, sem hefur verið í eigu Baugs.
Í fréttinni er rifjað upp að íslenska ríkið hafi eignast bankana í landinu fyrir tæpum þremur mánuðum. Stjórnvöld hafi síðan þá þegið ráðgjöf frá JP Morgan en nú sé ætlunin að skoða sérstaklega fjárfestingar Baugs í Bretlandi sem Landsbankinn hafi aðallega lánað til.
Meðal eigna Baugs í Bretlandi eru House of Fraser, Hamley's, Karen Millen og matvöruverslanir Iceland.