Á vef Wall Street Journal í dag er að finna ítarlega umfjöllun um aðdraganda og afleiðingar bankahrunsins á Íslandi. Ísland sé dæmi um þá tíma er auðvelt reyndist að fá lánsfé. Sé bankakerfið skoðað megi sjá að Íslendingar hafi verið mjög samtvinnaðir alþjóðlegu fjármálakerfi, fall íslensku bankanna hafi því haft áhrif frá Tókíó til Kaliforníu og allt til Miðausturlanda.
Tekin eru dæmi af japönskum lántakendum, fasteignamiðlurum í Kaliforníu og lánastofnuninni Bayerische Landesbank sem hafi tapað milljörðum á viðskiptum við íslenska banka.
Í greininni segir að það sem sé aðgreini Ísland frá öðrum smáríkjum, sem einnig gangi nú í gegnum fjármálakreppu, sé að Ísland hafi reynt að byggja upp alþjóðlega fjármálamiðstöð á agnarsmáum gjaldmiðli sínum. Þegar erlendir fjárfestar hafi svo reynt að draga sig til baka og skipt krónum aftur í dollara eða evrur í stórum stíl, hafi gjaldmiðillinn fallið mjög hratt. Það hafi orðið til þess að enn fleiri fjárfestar forðuðu sér.
Rakið er hvernig Íslendingar hafi rutt sér leið frá því að vera þjóð sem reiddi sig fyrst og fremst á fiskveiðar til þess að verða bankaveldi. Bankaveldi sem varð að leita að gróða erlendis þar sem smæð hennar byði ekki upp á mikla veltu heima fyrir.
Þrátt fyrir aðvaranir erlendra fjármálasérfræðinga árið 2006 um óhóflega stærð bankakerfisins hafi uppbyggingin haldið áfram og landið orðið hættulega háð fjármagni erlendis frá.
Í greininni segir að við upphaf bankahrunsins hafi forsvarsmenn bankanna átt fund þar sem komið hafi til greina að sameina Landsbankann og Glitni, sem hafi þó byggt á því að Seðlabankinn útvegaði evrur til að fjármagna skuldir Glitnis. Seðlabankinn hafi hins vegar ekki hugað að því að koma sér upp evruforða í samræmi við vöxt bankanna. Þá kemur fram að Tryggvi Þór Herbertsson, þáverandi fjármálaráðgjafi forsætisráðherra, hafi verið ósammála yfirtöku ríkisins á Gltini. það myndi koma illa við hluthafa og valda skaða á hlutabréfum í öðrum bönkum.
Að mati greinarhöfundar hefði evran getað dregið úr falli íslensku bankanna. Með því að höfðu til þjóðarstolts hafi Davíð Oddsson hinsvegar lengi spornað við því að þjóðin gengi í Evrópusambandið og tæki upp evruna.
Hér má nálgast grein Wall Street Journal.