Fréttir um að íslenska ríkið muni eignast hlut í verslunum Baugs í Bretlandi eru ekki á rökum reistar, að því er Gunnar Sigurðsson, forstjóri Baugs, segir í samtali við Mbl.is. Breska blaðið Financial Times greindi frá því í dag að svo gæti farið að skuldum Baugs við hina þjóðnýttu viðskiptabanka yrði breytt, að hluta að minnsta kosti, í hlutafé.
Segir Gunnar að skuldir Baugs séu ekki við nýju bankana, heldur þá gömlu, og því séu skuldirnar í eigu bankanna og kröfuhafa þeirra. Gömlu bankarnir séu ekki í ríkiseigu.
Sagði Gunnar að blaðamaður Financial Times hefði ekki haft samband við sig vegna fréttarinnar og að hann vissi ekki á hvaða heimildum hún væri byggð. Sagði hann að verið væri að endurskipuleggja starfsemi Baugs í samstarfi við bankana og væri markmiðið að bankarnir þyrftu ekki að afskrifa neinar skuldir.