Hræðilegu ári er að ljúka á Íslandi og óljóst er um framtíð ýmissa fyrirtækja, þar á meðal Baugs, að því er segir í frétt á vef Financial Times. Þar segir að það sé í höndum landsins sjálfs og lánadrottna stóru bankanna þriggja hver framtíðin verður hjá eignarhaldsfélögum, ekki bara Baugi heldur einnig hjá félögum eins og Milestone.
FT hefur eftir heimildarmönnum sem tengjast ríkisstjórninni og yfirmönnum eignarhaldsfélaganna að það sem sé næst á dagskrá sé að endurskipuleggja eignir bankanna. Væntanlega verði einhverjar eignir seldar en væntanlega sé líklegra að lánadrottnar fái verðbréf í stað þess sem þeir eiga inni. Með því eygi þeir von um betri hagnað er virði fyrirtækjanna fer upp á ný.
Haft er eftir Gunnari Sigurðssyni, forstjóra Baugs, að lykilatriðið sé að fyrirtækið er að vinna að því með bönkunum að endurskipuleggja reksturinn. Tilgangurinn með því sé að koma á stöðugleika og eðlilegu umhverfi í kringum reksturinn svo þau geti starfað eðlilega á ný.