Hrun íslensku bankanna hafði alvarleg áhrif á heimsmarkað með þorsk, að því er segir í nýjasta tölublaði Seafood Business. Segir þar að fjöldi fyrirtækja hafi lent í tímabundnum rekstrarvanda m.a. vegna þess að klippt var á lánalínur þeirra.
Segir í tímaritinu að stærsti vandi þorskiðnaðarins á næsta ári verði afleiðingar hrunsins á Íslandi. Ofan á það bætist að ekki sé gefið að þorskkvóti Íslendinga verði aukinn, en á móti komi 20% aukning þorskkvóta Norðmanna og Rússa. Þrátt fyrir efnahagskreppuna sé eftirspurn eftir þorski mikil. Fólk, sem áður fór út að borða, kaupi í auknum mæli þorsk til að elda heima hjá sér.