Tveimur starfsmönnum Kaupþings hefur verið sagt upp til viðbótar, en það eru þeir Jónas Sigurgeirsson, forstöðumaður upplýsingasviðs bankans og Benedikt Sigurðsson, upplýsingafulltrúi. Með brotthvarfi Jónasar eru allir framkvæmdastjórar gömlu Kaupþings samstæðunnar (e. Global) horfnir á braut.
Jónas segir í samtali við Mbl.is að þau níu ár, sem hann vann hjá bankanum hafi verið lærdómsrík, vinnustaðurinn hafi verið frábær og samstarfsfólkið sömuleiðis. „Hvað næstu skref mín varðar sé ég mörg tækifæri og mun nýta næstu mánuði til að skoða þá möguleika sem mér bjóðast.“
Jónas segist ekki vita hver muni taka við upplýsingasviði Kaupþings, en að hann geri ráð fyrir því að starfið verði auglýst til umsóknar.
Þrír framkvæmdastjórar Nýja Kaupþings létu af störfum í gær. Það voru Bjarki Diego, framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs en hann var einnig í skilanefnd bankans, Þórarinn Sveinsson, framkvæmdastjóri eignastýringasviðs, og Guðný Arna Sveinsdóttir, framkvæmdastjóri fjármála- og rekstrar.