Í upphafi árs stóð Úrvalsvísitalan í 6.144 stigum en var í morgun 30. desember rétt um 345 stig og hefur því lækkað um meira en 90% á árinu. Þá er Kauphöllin einnig 11 félögum fátækari nú heldur en í upphafi árs en nú eru eingöngu 12 félög skráð í kauphöllina. Markaðsvirði skráðra félaga í kauphöllinni er nú um 250 milljarðar króna en var í upphafi síðasta árs rúmlega 3.000 milljarðar króna.
Óhætt er því að segja að íslenskur hlutabréfamarkaður hefur munað sinn fífill fegurri, að því er fram kemur í Morgunkorni Greiningar Glitnis.
Íslenski hlutabréfamarkaðurinn er ekki sá eini sem kemur laskaður að ráslínu nýs árs. Fjármálakreppan hefur gert það að verkum að hlutabréf hafa fallið í verði víðast hvar á heimskringlunni. Á Norðurlöndunum hafa hlutabréf fallið í verði um á bilinu 45-55% á árinu. Í kauphöllinni í London hafa hlutabréf fallið um 35%, í Austurríki um 60% og í Þýskalandi um 42%. Í Bandaríkjunum hafa allar helstu hlutabréfavísitölur fallið um 35-40% á árinu. Sömu sögu er að segja um helstu markaði í Asíu.