„Ég get verið sjálfum mér reiður fyrir að hafa tekið ákvarðanir í uppbyggingu kerfis sem ekki stóðst, en með þeim ákvörðunum verð ég að lifa,“ segir Bjarni Ármannsson, fyrrverandi forstjóri Glitnis, í grein sem hann ritar í Fréttablaðið í dag.
Í greininni kemur meðal annars fram að Bjarni telji þá sem leiddu mismunandi þætti íslenska fjármálakerfisins hafa skapað of veikan grunn til að standast sviptingar alþjóðlegrar fjármálakreppu. „Þar gerðum við mistök í því að byggja upp of stórt kerfi á of skömmum tíma, reiða okkur á lítinn gjaldmiðil og peningamálastefnu sem ekki gat gengið til lengdar í heimi alþjóðaviðskipta.“
„ Ég tel að allir þeir semstýrðu fjármálakerfi okkar Íslendinga beri sína ábyrgð og að þeim beri að meta með ábyrgum hætti hvernig þeir axli hana. Þar undanskil ég ekki sjálfan mig og á jafnt við trú mína á krónuna, uppbyggingu launakerfis sem fór úr böndunum og hjarðhegðun sem leiddi til útlánaþenslu.Í fjölmörgum atriðum hefur okkur því miður farist óhönduglega: Í raun hlúðum við ekki að því hvernig við vildum að fjármálakerfið liti út í upphafi einkavæðingar. Þegar dreifðu eignarhaldi var kastað fyrir róða vorum við að búa til of sókndjarft kerfi. Samhliða þessu héldum við ekki úti nógu ströngu eftirlitskerfi. Okkur tókst heldur ekki að skapa nauðsynlegar hefðir í fjármálageiranum, þrátt fyrir viðleitni þar að lútandi. Trú mín og margra annarra á að markaðurinn gæti smíðað sitt eigið regluverk og framfylgt því reyndist ekki byggð á nægjanlega traustum grunni."
Bjarni segir í greinni að nú sé ljóst að sú umgjörð sem smíðuð var um fjármálageirann dugði ekki. „Skorti þar bæði á skilning okkar sem störfuðum í fjármálageiranum á því að lesa samfélag okkar og gæta samhengis við það. Sömuleiðis skorti á skilning stjórnmálamanna á starfsemi alþjóðlegra fjármálafyrirtækja og þar með hvers konar ramma þau þurfa að búa við.
Ofan á þetta bætist að við höfum ekki náð, hvorki í pólitík né viðskiptum, að höndla sveigjanleikann sem fylgir krónunni og hún gaf okkur ekki þá umgjörð sem langvarandi verðmætasköpun krefst. Án stöðugleika erum við ofurseld sveiflum eins og þeirri sem við glímum nú við afleiðingarnar af.
Það hefur því miður sýnt sig að við höfum ekki þann aga sem til þarf til að stýra eigin gjaldmiðli og nota hann sem efnahagslegt stjórntæki. Hluti af því að tryggja stöðugleika íslensks efnahagslífs til framtíðar litið hlýtur því að vera að kanna hug íslensku þjóðarinnar til fullrar aðildar að Evrópusambandinu með þeim kostum og göllum sem því fylgja," skrifar Bjarni í grein sem birtist í Fréttablaðinu í dag.