Kröfur í þrotabú danska flugfélagsins Sterling nema nú um 870 milljónum danskra króna, jafnvirði um 19,8 milljarða íslenskra króna, samkvæmt upplýsingum sem hafðar eru eftir skiptaráðanda félagsins. Flugfélagið Climber Air er sagt hafa greitt 8 milljónir danska króna fyrir hluta af rekstri Sterling.
Danski ferðamálavefurinn Standby vitnar til stöðuskýrslu frá skiptaráðandanum þar sem þessar upplýsingar koma fram. Hugsanlega munu kröfurnar í þrotabúið hækka þar sem enn er ekki búið að ganga frá bókhaldi félagsins.
Eignir, sem enn eru í þrotabúinu, eru metnar á 97 milljónir danskra króna en að sögn Standby eru þeir fjármunir ekki handfastir. Meðal skráðra eigna er flugskýli á Billundflugvelli, sem Sterling leigði en hafði forkaupsrétt að og það er metið á 8 milljónir. Þá eru kröfur félagsins á hendur ferðaskrifstofum og öðrum ferðaheildsölum metnar á 12 milljónir.
Gert er ráð fyrir að endanlegur listi yfir kröfur í þrotabúið liggi fyrir í febrúarlok.
Sterling var lýst gjaldþrota í októberlok. Það var í eigu Northern Travel Holding, sem var alfarið í eigu Fons, eignarhaldsfélags Pálma Haraldssonar. Fons á m.a. Iceland Express.