Í morgun hélt Hermann Jónasson forstjóri Tals fund með starfsfólki fyrirtækisins þar sem hann kynnti lögfræðiálit þar sem skýrt kemur fram að meint uppsögn hans úr starfi hafi verið ólögleg. Ástæðan sé m.a. sú að í samþykktum Tals og hluthafasamkomulagi eru skýr ákvæði um að allar meiri háttar ákvarðanir skuli teknar með atkvæðum allra stjórnarmanna.
Í tilkynningu kemur fram að brottvikning Hermanns var eins og kunnugt er tekin af tveimur fulltrúum Teymis í stjórn Tals gegn vilja annarra hluthafa. Auk þess hafði einum stjórnarmanni verið vikið af fundi.
„Á fundi með starfsfólki Tals í morgun kom fram að Hermann harmaði mjög þá óvæntu atburðarás sem hófst milli jóla og nýárs. Hann hvatti starfsfólkið til að vinna áfram með hagsmuni Tals að leiðarljósi. Kvaðst hann vona að fulltrúar Teymis sæju að sér og að friður skapaðist sem fyrst um starfsemi Tals. Lýsti hann því jafnframt yfir að hann myndi ótrauður berjast fyrir sjálfstæði Tals og hagsmunum viðskiptavina.
Í bréfi sem lögmenn
Hermanns hafa afhent stjórnarformanni Tals og í lögfræðiálitinu kemur fram að
Hermann hefur krafist þess að fá á ný að gegna forstjórastarfinu og jafnframt
að ráðning Ragnhildar Ágústsdóttur í starf nýs forstjóra verði tafarlaust
dregin til baka," að því er segir í tilkynningu sem send var út fyrir hönd Hermanns.