Ríkisstjórn Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, ætlar að halda áfram að styðja við bakið á þarlendu efnahagslífi en þýska hagkerfið er það stærsta í Evrópu.
Stefnan er sett á að setja saman stuðningsáætlun fyrir þýskan efnahag í þessum mánuði sem kemur til viðbótar þeim 23 milljörðum evra sem hefur verið varið í skattafslætti á nýjum bifreiðum og stuðning við fyrirtæki sem standa höllum fæti og þýska löggjafarþingið samþykkti í desember sl.
Áætlunin sem var samþykkt í desember var harkalega gagnrýnd fyrir að einkennast af of mikilli varkárni. Þjóðverjar mættu samdrætti á þriðja ársfjórðungi síðasta árs og er búist við að efnahagurinn dragist enn frekar saman á þessu ári.
Nýja áætlun ríkisstjórnar Merkel felur í sér ríkisútgjöld upp að 50 milljörðum evra til viðbótar. „Við viljum komast í gegnum í gegnum þessa erfiðleika sterkari en við mættum þeim [...]. Aðalatriðið er að tryggja störfin og hvetja til fjárfestinga,“ sagði Merkel við fjölmiðlamenn í dag áður en hún fundaði með öðrum ráðherrum.