Vissu ekki um eignarhlut Hermanns

Hermann Jónasson, forstjóri Tals og Sævar Freyr Þráinsson, forstjóri Símans …
Hermann Jónasson, forstjóri Tals og Sævar Freyr Þráinsson, forstjóri Símans þegar samningurinn við Símann var undirritaður.

Þórdís J. Sigurðardóttir, stjórnarformaður Tals, segir að ákvörðun stjórnarinnar um að segja upp Hermanni Jónassyni, forstjóra félagsins og rifta samningi sem Hermann gerði við Símann, standi. Hún segir jafnframt að Hermann hafi leynt sig og aðra stjórnarmenn í félaginu um eignarhlut sinn í félagi Jóhanns Óla Guðmundssonar, sem á 49% hlut í Tali.

„Hann gerði samning við annað símafyrirtæki [Símann] á sama tíma og fyrirtækið [Tal] var með virkan samning við Vodafone. Bæði fyrirtækin hóta núna málsókn. Eðlilega vil ég að samningar sem gerðir eru séu sem allra hagstæðastir fyrir viðskiptavini Tals en menn verða hins vegar að gæta lágmarkssiðferðis við gerð samninga,“ segir Þórdís.  Hún segir að samningur Tals við Vodafone sé til fimm ára og sé óuppsegjanlegur. Aðspurð hvort það séu einhver ákvæði í samningum sem bjóði upp á það að forstjóri Tals geri reikisamninga við önnur fyrirtæki segir hún svo ekki vera. „Nei, það er ekki þannig,“ segir Þórdís. Hún segir að Hermann hafi sjálfur gert samninginn við Vodafone á sínum tíma.

Vissu ekki um eignarhlut Hermanns
„Hermann upplýsti okkur ekki um eignarhlut sinn í þessu félagi hans og Jóhanns Óla. Hvers vegna leyndi hann okkur því? Við komumst að þessu í gegnum fjölmiðla. Hann hefur eflaust talið að hann gæti sagt upp þessum samningi Vodafone [og samið við Símann] en hann fór á bakvið stjórn Tals með þetta mál allan tímann. Það lá fyrir erindi til Póst- og fjarskiptastofnunar um hvernig ætti að leysa reikimál félagsins og hann dregur það til baka eftir fimm daga án þess að fá niðurstöðu í það mál. Síðan gerir hann samning við Símann án þess að láta stjórnina vita. Af hverju gerir hann það? Síðan sagði hann ekki einu sinni upp samningnum við Vodafone, gerði bara nýjan samning við Símann,“ segir Þórdís.

Aðspurð um álitsgerð sem lögmaður Hermanns vann segir Þórdís að ákvörðun stjórnarinnar um uppsögn Hermanns standi. Hún segir að stjórnin hafi athafnað sig að fullu innan heimilda og meirihluti stjórnar hafi tekið ákvörðunina.

Í morgun hélt Hermann fund með starfsfólki fyrirtækisins þar sem hann kynnti lögfræðiálit þar sem skýrt kemur fram að meint uppsögn hans úr starfi hafi verið ólögleg. Ástæðan sé m.a. sú að í samþykktum Tals og hluthafasamkomulagi eru skýr ákvæði um að allar meiri háttar ákvarðanir skuli teknar með atkvæðum allra stjórnarmanna.

Í tilkynningu kemur fram að brottvikning Hermanns var eins og kunnugt er tekin af tveimur fulltrúum Teymis í stjórn Tals gegn vilja annarra hluthafa. Auk þess hafði einum stjórnarmanni verið vikið af fundi.

Þórdís J. Sigurðardóttir
Þórdís J. Sigurðardóttir Mbl.is / Sverrir Vilhelmsson
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK