Bandaríska álfélagið Alcoa tilkynnti í kvöld, að um 13% starfsmanna félagsins um allan heim, eða um 13.500 manns, yrði sagt upp á árinu. Þá verður dregið úr álframleiðslu vegna samdráttarins í efnahagslífi heimsins. Alcoa rekur m.a. álverið í Reyðarfirði og hefur kannað möguleika á að reisa annað álver á Bakka við Húsavík.
Alcoa tilkynnti einnig, að nýtt starfsfólk yrði ekki ráðið og laun yrðu fryst. Þá verður sagt upp samningum við um 1700 verktaka.
„Þetta eru óvenjulegir tímar og það þarf að bregðast við núverandi efnahagssamdrætti með fumlausum hætti en sýna einnig sveigjanleika og framsýni," sagði Klaus Kleinfeld, stjórnarformaður og forstjóri Alcoa.
Gengi hlutabréfa Alcoa lækkaði um nærri 4% í viðskiptum eftir að kauphöllinni á Wall Street var lokað í kvöld en hafði áður hækkað um nærri 2% í dag.
Fram kemur í tilkynningu frá Alcoa að dregið verði úr framleiðslu um 18% á næstunni. Gripið verður til ýmissa annarra ráðstafana til að draga úr kostnaði.
Gert er ráð fyrir að kostnaður vegna þessara aðgerða verði 900-950 milljónir dala. En fyrirtækið áætlaðar að árlegur sparnaður muni nema um 450 milljónum dala fyrir skatta.
Alcoa áformar einnig að selja ýmsa starfsemi, sem ekki telst til kjarnastarfsemi, svo sem fyrirtæki, sem framleiða rafbúnað, álfelgur og álpappír. Tekur af þessari starfsemi námu um 1,8 milljörðum dala á síðasta ári en tap á rekstri hennar nam um 105 milljónum dala. Gert er ráð fyrir að nettósöluhagnaður muni nema um 100 milljónum dala. Um 22.600 manns starfa í þessum fyrirtækjum á 38 stöðum.
Alcoa gerði í desember samning við norska fyrirtækið Orkla ASA um kaup á 50% hlut norska félagsins í sænska álfélaginu Elkem Aluminium. Mun Alcan þá eignast Elkem að fullu. Orkla fær á móti 45% hlut Alcan í bandaríska fyrirtækinu SAPA. Gert er ráð fyrir að gengið verði frá þessum viðskiptum á fyrsta ársfjórðungi og verður Alcoa þá stærsta álfélag heims. Nú er rússneska álfélagið Rusal það stærsta í heimi.