Raungengi krónunnar hækkaði um 8% í desember frá fyrri mánuði ef miðað er við hlutfallslegt verðlag en er þó ennþá mjög lágt í sögulegu samhengi. Á síðasta ári lækkaði raungengi krónunnar um tæplega 40%.
Þetta kemur fram í hagtölum Seðlabankans um raungengi sem birtar voru í gær.
Í Morgunkorni Glitnis kemur fram að raungengi krónunnar náði sögulegum lægðum í nóvembermánuði og hafði raungengi krónunnar þá aldrei verið lægra enda gjaldmiðilinn þá í heljargreipum gjaldeyriskreppu og gjaldeyrishafta og gengi krónunnar réðst á uppboðsmarkaði Seðlabankans sem haldinn var í upphafi hvers dags eins og skemmst er að minnast.
„Í byrjun desember var opnað fyrir gjaldeyrisviðskipti á millibankamarkaði á nýjan leik og styrkist krónan um nær fjórðung á fyrstu dögum þessa fyrirkomulags skilyrts flots. Fljótlega gekk þessi styrking þó að hluta til baka og nam styrking krónunnar í desembermánuði rúmlega 13% þegar yfir lauk.
Raungengi krónunnar er, þrátt fyrir að hafa sótt í sig veðrið undanfarið, óravegu frá langtímajafnvægi og meðaltali og flýtir þessi þróun allverulega fyrir aðlögun hagkerfisins að ytra jafnvægi. Ísland er nú í raun ódýrt í alþjóðlegum samanburði sem er mikill viðsnúningur frá fyrri tíð þegar Ísland komst ítrekað ofarlega á blað yfir dýrustu lönd í heimi og óvíða annars staðar en í Reykjavík þóttu peningar ferðmanna duga jafn skammt og raun bar vitni.
Þetta lága raungengi er tímabundið ástand enda mun raungengi krónunnar hækka til lengri tíma litið þegar jafnvægi næst á gjaldeyrismarkaði og nafngengi krónunnar tekur að stíga á nýjan leik. Engu að síður býður lágt raungengi upp á ýmis tækifæri enda er samkeppnishæfni hagkerfisins nú með besta móti í alþjóðlegu tilliti og ódýrara er fyrir erlenda ferðmenn að sækja landið heim. Að sama skapi hafa krónur Íslendinga rýrnað verulega að verðgildi í útlöndum eins og þeir landsmenn sem hafa lagt land undir fót undanfarna mánuði hafa fengið að kenna á," að því er segir í Morgunkorni Greiningar Glitnis.