Iceland Express eignast Ferðaskrifstofu Íslands

Matthías Imsland, forstjóri Iceland Express.
Matthías Imsland, forstjóri Iceland Express. mbl.is/Jón Pétur

Iceland Express hefur gengið frá kaupum á öllu hlutafé í Ferðaskrifstofu Íslands, sem inniheldur Úrval útsýn, Plúsferðir og Sumarferðir. Hjá félögunum starfa rúmlega 70 manns.

Ferðaskrifstofan hefur glímt við rekstrarerfiðleika undanfarna mánuði. Með kaupunum er tryggt að þeir fjölmörgu farþegar sem keypt höfðu ferðir hjá félaginu, munu ekki verða strandaglópar, að því segir í tilkynningu.

Iceland Express mun koma með nýtt fé inn í reksturinn og tekur við öllum skuldbindingum þess. Samningur þess efnis var undirritaður í gær. Þorsteinn Guðjónsson verður áfram forstjóri félagsins.

Að sögn Matthíasar Imsland, forstjóra Iceland Express, mun Iceland Express leggja nokkur hundruð milljónir króna inn í rekstur Ferðaskrifstofu Íslands auk þess að yfirtaka skuldir félagsins. Matthías vill ekki gefa upp hversu miklar skuldir Ferðaskrifstofu Íslands séu.

Hluthafafundur verðu haldinn fljótlega að sögn Matthíasar og þar verður kjörin ný stjórn félagsins.

Iceland Express er í eigu fjárfestingafélags í eigu Pálma Haraldssonar.

Matthías segir að Iceland Express hafi þegar sett fjármagn inn í Ferðaskrifstofu Íslands og félagið standi mjög traust eftir þetta og rekstur þess til framtíðar tryggður.

Aðspurður um hvort Iceland Express hafi bolmagn til þess að leggja nokkur hundruð milljónir króna inn í rekstur félagsins segir Matthías að Iceland Express njóti góðs af því að vera sterkt félag með sterkan bakhjarl. „Einmitt svona ástand býður upp á tækifæri fyrir okkur til að vaxa og dafna í þessu umhverfi."

Haft er eftir Matthíasi Imsland í tilkynningu að ánægja sé með þessi kaup.  „Vissulega er útlit fyrir töluverðan samdrátt í greininni, en við ætlum að vera á þessum markaði til langframa og við lítum á þetta sem langtímafjárfestingu. Við teljum að með þeim aðhaldsaðgerðum sem þegar hefur verið gripið til hjá félögunum, þá standi þau sterk eftir og muni geta haldið áfram að bjóða Íslendingum upp hagkvæmar ferðir til áhugaverðra áfangastaða um heim allan."

Þorsteinn Guðjónsson segir í tilkynningu: „Það er mikið fagnaðarefni fyrir stjórnendur og starfsmenn Ferðaskrifstofu Íslands, að tekist hafi að tryggja áframhaldandi rekstur félagsins. Við búum yfir mjög fórnfúsu og reynslumiklu starfsfólki, sem hefur sýnt mikið æðruleysi í því mótlæti sem gengissveiflur og bankakreppan hafa leitt yfir okkur. Iceland Express er öflugur bakhjarl og ég trúi að saman eigi þessi félög eftir að dafna. Þetta eru öflug vörumerki, sem byggt hafa upp traust samband við íslenska neytendur í áratugi og ég fagna því að fá að taka þátt í næsta kafla í þeirri ferðasögu."

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK