Samkvæmt bráðabirgðatölum fjármálaráðuneytisins var verðmæti innfluttrar vöru í desember 32,5 milljarðar, sem er um 8 milljörðum minna en í nóvember. Þá eru vísbendingar um að útflutningur vöru hafi aukist töluvert í desember en hann nam 43,2 milljörðum í nóvember.
Fjármálaráðuneytið vekur þó athygli á því að vegna tæknilegra vandamála hafi Hagstofa Íslands enn ekki birt bráðabirgðaniðurstöður sínar fyrir desember og verði þær birtar á vef stofnunarinnar næstkomandi miðvikudag. Sé því ekki tímabært að birta nákvæmar upplýsingar varðandi útflutning eða vöruskiptin í heild í desember en líklega sé um verulega aukinn afgang að ræða.
Samdrátturinn í innflutningi er mestur á eldsneyti og smurolíum en þessi liður er jafnan mjög sveiflukenndur á milli mánaða. Einnig er nokkur samdráttur á innflutningi á hrá- og rekstrarvörum og segir fjármálaráðuneytið, að sá samdráttur skýrist af minni innflutningi á áloxíði en mikið var flutt inn af því í nóvember. Aðrir undirliðir innflutningsins í desember eru að mestu óbreyttir miðað við undanfarna mánuði.
Varðandi fyrirliggjandi vísbendingar um útflutning í desember er búist við auknum útflutningi á bæði áli og sjávarafurðum. Fjármálaráðuneytið segir að ekki sé ólíklegt að álfyrirtækin hafi átt uppsafnaðar birgðir frá nóvember þar sem útflutningurinn var með minna móti í þeim mánuði. Sömu sögu megi segja varðandi útflutning sjávarafurða en einhverrar sölutregðu hafi gætt á erlendum mörkuðum á íslensku sjávarfangi auk þess sem verð sjávararfurða hafi lækkað.
Þrátt fyrir styrkingu á meðalgengi krónunnar um 5,8% milli nóvember og desember er reiknað með að vegna aukins útflutnings hafi útflutningsverðmæti sjávarafurða verið með besta móti í desember.