Stærstu bankar Bandaríkjanna eru byrjaðir að bjóða íbúðalán með föstum vöxtum sem eru undir 5%. Segir í frétt Bloomberg-fréttastofunnar að þeir geti þetta á grundvelli þess að ríkið hafi að undanförnu yfirtekið ábyrgðir vegna eldri lána þeirra.
JPMorgan Chase bankinn auglýsir nú íbúðalán með 4,75% föstum vöxtum á heimasíðu sinni. Þá auglýsir Wells Fargo bankinn 4,875% fasta vexti og Bank of America 5,0% vexti. Lánshlutfallið sem í boði er miðast við 80% af kaupverði. Ekki þarf að taka fram að þessi íbúðalán eru að sjálfsögðu óverðtryggð.
Markmið bankanna með þessum vaxtakjörum er að freista þess að örva fasteignamarkaðinn í Bandaríkjunum og þar með efnahagslífið. Verulega hefur dregið úr öllum fasteignaviðskiptum vestanhafs, enda hófst kreppan á fjármálamarkaðinum fyrst þar með þeim erfiðleikum sem komu upp í kjölfar ótryggra húsnæðislána, svonefndra undirmálslána.