Glitnir veitti Baugi Group fimmtán milljarða króna víkjandi lán á árinu 2007 og Kaupþing veitti félaginu sambærilegt lán uppá 4,8 milljarða króna. Bæði lánin áttu að koma til greiðslu á árinu 2013. Auk þess veitti Fasteignarfélagið Stoðir, sem nú heitir Landic Property og er meðal annars í eigu sömu aðila og eiga Baug, félaginu 3,3 milljarða króna víkjandi lán.
Þetta kemur fram í ársreikningi Baugs Group fyrir árið 2007 sem Morgunblaðið hefur undir höndum en hefur enn ekki verið skilað inn til ársreikningaskrár.
Eigendur Baugs Group voru samtals 48 talsins í lok árs 2007. Einn þeirra, Fjárfestingafélagið Gaumur, átti 68 prósent og var eini eigandinn sem átti yfir tíu prósenta hlut. Gaumur er í 96 prósenta eigu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, Kristínar Jóhannesdóttur systur hans og foreldra þeirra.
Víkjandi lán mæta afgangi ef fyrirtæki geta ekki greitt öllum sem eiga kröfu á þau og eru þar af leiðandi mun áhættusamari fyrir lánveitendur en önnur lán. Þeir sem veita víkjandi lán eru því nokkurskonar afgangskröfuhafar. Á móti kemur að oftast nær þarf að greiða hærri vexti af víkjandi lánum en öðrum lánum.
Lán voru 176 milljarðar króna og þar af áttu um 65 milljarðar króna að vera á gjalddaga í fyrra, tæpir 26 milljarðar króna í ár og 39 milljarðar króna á næsta ári.
81,5 milljarðar króna af lánunum voru í erlendum gjaldmiðlum en 94,2 milljarðar í íslenskum krónum. Hlutabréf í fyrirtækjum í eigu Baugs að andvirði um 240 milljarðar króna voru veðsett til að tryggja 108 milljarða króna skuld félagsins í íslenskum krónum.