Jean-Claude Trichet, seðlabankastjóri Evrópu, sagði í dag að fjármálakerfi heimsins væri enn býsna brothætt þrátt fyrir snögg og umfangsmikil viðbrögð seðlabanka og ríkisstjórna.
Trichet var meðal frummælanda á ráðstefnu í París í dag um framtíð kapítalismans og sagði m.a. að það væru mistök að vanmeta hversu brothætt núverandi fjármálakerfi og þar með hagkerfi heims væri af kerfislægum ástæðum.
Trichet sagði að aðgerðir seðlabanka og ríkisstjórna í því að auka fjárflæði og endurfjármögnun fjármálageirans hafi reynst áhrifaríkar í því að koma í veg fyrir algjöra bráðnun fjármálakerfisins á heimsvísu.
Hann nefndi þó að óhjákvæmilegt væri að gera endurbætur á fjármálakerfi heimsins til að gera það styrkara í náinni framtíð og til lengri tíma, og þannig hæfara til að mæta áföllum.
Ástæðuna fyrir yfirstandandi kreppu sagði Trichet hafa verið „víðtækt vanmat á áhættu í fjármálakerfinu, sérstaklega í þróuðustu ríkjunum.“
Seðlabankastjórinn hrósaði samræmdum viðbrögðum við hruninu af hálfu bæði seðlabanka og ríkisstjórna. Hann sagði hins vegar að sókn í skammtímagróða og skortur á gagnsæi væri eftir sem áður vandamál í fjármálakerfi heimsins.
Trichet sagði umbætur þurfa að snúast um stjórnkerfi sem lágmarkaði þá skammtíma hagnaðarhugsun sem hefði leitt til gífurlegrar áhættusækni markaðsafla í aðdraganda kreppunnar.
Hann nefndi einnig fleiri aðgerðir sem mætti taka upp til að draga úr óhóflegum sveiflum í fjármálaheiminum, svo sem að auka bindiskyldu banka og gera þeim að byggja um varasjóði til að grípa til í niðursveiflum.
Gagnsæi markaða, einkum fjármálastofnana sem ekki byggju við opinbert regluverkseftirlit, og markaða á borð við vogunar- og hlutabréfasjóði, verður að auka, sagði evrópski seðlabankastjórinn.