FME: Enn unnið að rannsókn á bönkunum


Fjármálaeftirlitið hefur síðan um miðjan október sl. rannsakað hvort brotið hafi verið gegn þeim lögum sem Fjármálaeftirlitið hefur eftirlit með í starfsemi bankanna þriggja sem komust í greiðsluþrot í byrjun þess mánaðar. Má nefna að til skoðunar eru  viðskipti með verðbréf og markaðssetning- og fjárfestingar peningamarkaðssjóða.  Fjármálaeftirlitinu hafa einnig borist ýmsar ábendingar og eru þær skoðaðar sérstaklega. Þetta kemur fram á vef FME vegna umræðu í fjölmiðlum um rannsóknir á starfsemi bankanna. 

„Utanaðkomandi sérfræðingar hafa að beiðni Fjármálaeftirlitsins skoðað ákveðna þætti er snúa m.a. að innri reglum bankanna og lögum um fjármálafyrirtæki. Þessi skoðun snýr t.d. að þáttum eins og óeðlilegum fjármagnshreyfingum innan samstæðu eða milli landa, skilmálabreytingum lánasamninga, breytingum á tryggingum og veðum, meðferð afleiðusamninga,  viðskiptum með verðbréf og hlutdeildarskírteini verðbréfasjóða og meðferð rekstrarfjármuna. Upplýsingum vegna þessarar skoðunar hefur verið skilað til Fjármálaeftirlitsins.

Um er að ræða frumgögn sem telja mörg hundruð blaðsíður.  Úrvinnsla þessara upplýsinga er hafin með það fyrir augum að sannreyna hvort lög hafi verið brotin. Mikilvægt er að vandað sé til slíkrar rannsóknarvinnu og hún unnin af hlutlægni og þess jafnan gætt að spilla ekki rannsóknarhagsmunum.  Í þessu skyni skal áréttuð sú grunnregla réttarríkisins að enginn er sekur þar til sekt er sönnuð.

Fjármálaeftirlitið mun skipuleggja vinnu sína á þann hátt að rannsóknarvinnunni verði hraðað og bætt við tímabundnum starfsmönnum eða utanaðkomandi sérfræðingum ef þörf er á.  Í þeim tilvikum sem niðurstöður benda til refsiverðs verknaðar verður beitt stjórnvaldssektum eða málum vísað til lögreglu.  Veittar verða upplýsingar um niðurstöður rannsókna á þann hátt sem lög leyfa og eftir því sem verkinu vindur fram.

Rétt er að taka fram að Fjármálaeftirlitið vinnur innan ákveðins lagaramma sem takmarkar möguleika þess á að tjá sig mál sem það  hefur til skoðunar. Einnig er mögulegt að opinber umfjöllun um einstök mál á rannsóknarstigi geti spillt rannsóknum eða ónýtt mál fyrir dómi. Fjármálaeftirlitið, líkt og aðrar eftirlitsstofnanir, má ekki láta af hendi gögn sem tengjast rannsóknum sem það fæst við, nema heimild sé til staðar í lögum," að því er segir á vef FME.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka