Sveiflukenndri viku er lokið á olíumarkaði og var lokaverð hráolíu til afhendingar í febrúar 40,83 dalir tunnan á NYMEX markaðnum í New York í kvöld. Um tíma í kvöld fór tunnan undir 40 dali. Á mánudag fór tunnan í 48 dali en hækkunin þá skýrist af átökunum á Gaza. Lækkunina síðustu þrjá daga má hins vegar rekja til efnahagsástandsins í Bandaríkjunum.
Í fyrradag voru birtar nýjar tölur um hráolíubirgðir í Bandaríkjunum og reyndust þær vera miklu meiri heldur en talið var. Í dag voru birtar tölur um atvinnuleysi þar í landi og mælist það nú 7,2%. Því er ljóst að efnahagsástandið hefur sjaldan verið jafn slæmt í Bandaríkjunum síðustu áratugi.
Í Lundúnum lækkaði verð á Brent Norðursjávarolíu um 25 sent og lokaði í 44,42 dölum.