Heimsmarkaðsverð á olíu hélt áfram að lækka í dag í kjölfar frétta af auknu atvinnuleysi í Bandaríkjunum, stærsta hagkerfi heims. Hefur atvinnuleysi ekki mælst jafn mikið þar í landi í sextán ár. Verð á hráolíu til afhendingar í febrúar hefur lækkað um einn dal tunnan á NYMEX markaðnum í New York og er nú 40,70 dalir. Fyrr í vikunni hafði heimsmarkaðsverð á olíu hækkað talsvert vegna átakanna á Gaza og fór í tæpa 48 dali tunnan.
Í Lundúnum lækkaði verð á Brent Norðursjávarolíu um 86 sent og er 44,81 dalur tunnan.