Í febrúar og mars næstkomandi þarf að greiða háar fjárhæðir í vexti af jöklabréfum sem eru að mestu í eigu erlendra aðila, að því er fram kemur í fréttabréfi Landsbankans, Daily Economic Briefing.
Samkvæmt reglum Seðlabankans um gjaldeyrisviðskipti geta erlendir eigendur jöklabréfa ekki fengið þau greidd út í gjaldeyri. Hins vegar er leyfilegt að greiða vexti af slíkum bréfum í gjaldeyri á gjalddaga.
Fyrr í þessari viku voru 3 milljarða króna jöklabréf á gjalddaga en í janúar eru alls 45 milljarða króna jöklabréf á gjalddaga. Þá kemur fram í fréttabréfi Landsbankans að hinn 28. þessa mánaðar muni þurfa að greiða 5,6 milljarða í vexti af 40 milljarða jöklabréfum, að mestu til erlendra aðila, og svo háar fjárhæðir í febrúar og mars.