Af hverju hafa stýrivextir Seðlabanka Íslands ekki verið lækkaðir eins og stýrivextir í löndunum í kringum okkur? Nærtækasta skýringin er sú að verðbólga mælist enn há og fer enn hækkandi. Engu að síður hefur efnahagslífið hér á landi dregist umtalsvert saman að undanförnu eins og í nágrannalöndunum og víðar. Fólk og fyrirtæki eru ekki að taka lán svo nokkru nemi, enda ekki í boði.
Stjórnvöld í nágrannalöndunum hafa að undanförnu verið að gera allt sem þau geta til að örva lánamarkaðinn og efnahagslífið, og hver seðlabankinn af öðrum hefur lækkað stýrivexti sína, jafnvel niður á lægra stig en sést hefur, sumir niður að núll prósentum. Tilgangurinn er að vinna á móti samdrættinum. En ekki hér, því vöxtum er haldið háum. Sú spurning vaknar hvort vextirnir hér á landi verði óhjákvæmilega að vera háir til langframa og þá jafnvel að höft á gjaldeyrismarkaði verði einnig nauðsynleg.
Í þessu sambandi vaknar sú spurning hví gjaldeyrishöft og skilaskylda á gjaldeyri duga ekki til. Þarf virkilega hæstu stýrivexti á byggðu bóli einnig, jafnvel þó samdráttur blasi við á öllum sviðum?