Ekki er hægt að segja til um það á þessu stigi hve vel reglur Seðlabankans um skilaskyldu á gjaldeyri virka, sem settar voru um miðjan desembermánuð. Of skammur tími er liðinn, samkvæmt upplýsingum frá Seðlabankanum.
Í reglum Seðlabankans um gjaldeyrismál segir að öllum erlendum gjaldeyri, sem innlendir aðilar eignast fyrir seldar vörur og þjónustu eða á annan hátt, beri að skila til fjármálafyrirtækis hér á landi innan tveggja vikna frá því að gjaldeyririnn komst eða gat komist í umráð eiganda eða umboðsmanns hans.
Samkvæmt upplýsingum frá Seðlabankanum hefur lítið reynt á reglurnar enn sem komið er, í fyrsta lagi vegna þeirra tveggja vikna sem eigendur gjaldeyris hafa til að skila honum. Í annan stað þurfi Seðlabankinn önnur gögn, til að mynda frá Hagstofunni, en þau berist ekki fyrr en eftir að mánuði er lokið. Því sé of snemmt að segja til um það á þessu stigi hve vel reglurnar virki.