Bakkabræður, Lýður og Ágúst Guðmundssynir, ætla ekki að láta Exista svo auðveldlega í hendur stjórnar Nýja Kaupþings.
Höfðu bræðurnir lagt fram yfirtökutilboð í félagið, gegn vilja stjórnar Nýja Kaupþings, og var það auglýst í Morgunblaðinu sl. mánudag.
Í gær var hins vegar tilkynnt að yfirtökutilboðið gengi ekki eftir. Það frestast um óákveðinn tíma og voru tæknilegar ástæður sagðar orsökin.
Tekist er á um hvort núverandi eigendur eigi að stjórna förinni í viðræðum við kröfuhafa félagsins. Stjórnendur Nýja Kaupþings vilja, samkvæmt heimildum Morgunblaðsins, leiða þær viðræður. Bankinn á mikilla hagsmuna að gæta vegna hárra krafna á Existu.
Þegar Kaupþing ætlaði að taka Existu yfir í desember tóku bræðurnir hins vegar snúning sem kom í veg fyrir að bankinn náði félaginu á sitt band. Lýður og Ágúst nýttu heimild hluthafafundar til hlutafjáraukningar og lögðu einn milljarð í handbæru fé inn í félagið á genginu 0,02. Við það eignuðust þeir tæplega 78% í Existu í gegnum félagið BBR.
Kaupþing tók hins vegar yfir félag þeirra bræðra, sem var fyrir hlutafjáraukninguna stærsti einstaki hluthafinn, Bakkabræður Holding, og eignaðist 10,4% í félaginu.
Bræðurnir telja sig eiga meira inni í Kaupþingi og öðrum íslenskum bönkum en þeir skulda m.a. vegna óuppgerðra gjaldeyrisskiptasamninga. Kröfur innlendra aðila á Existu nemi 125 milljörðum króna en kröfur félagsins á hendur banka séu á bilinu 120 til 140 milljarðar króna.