Hrein eign lífeyriskerfisins rýrnaði um 11% að raungildi á frá upphafi síðasta árs til nóvemberloka. Eignastaðan batnaði þó heldur í nóvembermánuði, þótt stærstur hluti nafnaukningar eigna hafi verið vegna þess hve gengi krónu var lágt í nóvemberlok.
Í tölum um efnahag lífeyrissjóða sem Seðlabankinn birti á föstudag kemur fram að hrein eign til greiðslu lífeyris var 1.713 ma.kr. í nóvemberlok, og hafði þá aukist að nafnvirði um 77 ma.kr. í mánuðinum. Til samanburðar voru eignir lífeyrissjóðanna til greiðslu lífeyris 1.697 ma.kr. í upphafi árs 2008.
Í Morgunkorni Glitnis kemur fram að frá hruni bankakerfisins í októberbyrjun hafa lífeyrissjóðirnir kosið að ávaxta stærstan hluta nýrra iðgjalda í innlánum, enda óvissa mikil á markaði, fjárfestingarkostir fremur fáir og ávöxtun á innlánsreikningum há.
„Sjóður og bankainnistæður lífeyrissjóðanna námu þannig tæpum 158 mö.kr.
í nóvemberlok, en til samanburðar var þessi tala rúmir 32 ma.kr. í
byrjun síðasta árs. Erlendar eignir sjóðanna jukust að nafnvirði um 52
ma.kr. í nóvembermánuði, en sé tekið tillit til breytinga á gengi krónu
í mánuðinum rýrnuðu þær hins vegar um rúm 5%, enda lækkuðu hlutabréf
verulega á flestum erlendum mörkuðum á tímabilinu."