Skuldir ríkissjóðs eru rúmir 653 milljarðar króna án tillits til allra skuldbindinga sem falla á ríkissjóð vegna falls bankanna. Um 335 milljarðar króna eru innlendar skuldir en 318 milljarðar króna eru í erlendum skuldum. Þar af eru um 271 milljarður króna í evrum. Erlend langtímalán eru 49 prósent af öllu lánasafin ríkissjóðs. Þetta kemur fram í nýjum Markaðsupplýsingum um lánamál ríkisins frá Seðlabanka Íslands.
Í þessum tölum eru ekki kostnaður ríkissjóðs vegna Icesave og Edge innlánsreikninga erlendis, sem er áætlaður að minnsta kosti 150 milljarðar króna, kostnaður vegna tapaðra veða Seðlabanka Íslands né endurfjármögnun ríkisbankanna þriggja sem er áætlað að kosti um 385 milljarða króna. Því er ljóst að skuldir ríkisins munu vaxa mikið á komandi ári.
Síðar í janúar er áætlað að kynna ársáætlun í lánamálum ríkissjóðs sem mun byggja á samningi milli fjármálaráðuneytis og Seðlabanka Íslands um lánaumsýslu ríkissjóðs.