Robert Wade, hagfræðingur og prófessor hjá London School of Economics, segir að búast megi við nýjum skelli í hagkerfi heimsins á tímabilinu frá mars til maí. Íslenska ríkisstjórnin hafi enn tíma til að búa sig undir það.
Wade sagði í Kastljósi Sjónvarpsins í gærkvöldi, að búast mætti við nýrri dýfu í vor, svipaðri og varð í september þegar bandaríski seðlabankinn ákvað að koma ekki í veg fyrir gjaldþrot fjárfestingarbankans Lehman Brothers.
Hann sagði, að íslenska ríkisstjórnin hefði því nokkra mánuði til að búa sig undir þetta og grípa til aðgerða. Verði það ekki gert með skipulögðum og skilvirkum hætti muni allt verða í kaldakoli á Íslandi um þetta leyti á næsta ári.
Wade sagði að enn væri atvinnuleysið ekki farið að bíta af krafti og lífeyrissjóðir hefðu ekki enn hrunið. Hins vegar væri líklegt að atvinnuleysið aukist til muna og að lífeyrissjóðir yrðu að skerða bótagreiðslur. Stjórnvöld gætu gert ráðstafanir til að bregðast við þessu en Wade sagðist óttast, að helstu stjórnmálaleiðtogar gerðu sér ekki grein fyrir alvöru málsins. Sagði Wade að viðbrögð ríkisstjórnarinnar og Seðlabankans við fjármálakreppunni til þessa virtust vera fálmkennd.
Hann sagði að staðan á Íslandi væri mjög áhugaverð frá sjónarhóli félagsvísindamanna því þetta væri í fyrsta skipti þar sem bankakerfið hefði hrunið í nútímalegu hagkerfi á sama tíma og heimskreppa riði yfir.