Alþjóðaefnahagsráðið (World Economic Forum) spáir því að helst ógnin sem alþjóðlegt efnahagslíf standi frammi fyrir árið 2009 sé frekari verðlækkun á eignum á borð við fasteignir og hlutabréf. Í árlegri áhættuskýrslu ráðsins kemur fram að það telur að verðhjöðnun eigna gæti kostað alþjóðlegt efnahagslíf allt að einni billjón dala.
Skýrslan, sem heitir The Global Risks 2009á frummálinu, segir efnahagshorfur margra landa grimmilegar þar sem markaðir verði áfram hviklyndir, atvinnuleysi muni aukast og tiltrú neytenda og fyrirtækja muni ná áður óþekktum lægðum.
Klaus Schwab, sem stýrir Alþjóðaefnahagsráðinu, segir að árið 2009 verði notað til að læra af fjármálakreppunni og til að móta nýtt fjármálakerfi. „Tækifærisglugginn sem við höfum til að takast á við sumar af stærstu áskorununum okkar tíma er þröngur."
Árlegar skýrslur Alþjóðaefnahagsráðsins eru unnar í samvinnu við ýmis fyrirtæki, þar á meðal Citigroup bankann sem hefur tapað yfir 20 milljörðum dala frá því í október 2007 eftir að hafa veðjað mjög á vöxt bandaríska húsnæðismarkaðarins í fjárfestingum sínum. Bandarísk stjórnvöld hafa þegar lánað Citigroup um 45 milljarða dala og samþykkt að taka til sín mikið af töpuðum húsnæðislánum og öðrum verðlitlum eignum.
Áhættuskýrsla ráðsins fyrir árið 2007 var einnig unnin í samvinnu við Citigroup. Í henni var ekki minnst einu orði á þá áhættu sem alþjóðlegu fjármálakerfi stafaði af undirmálslánum á bandarískum húsnæðsimarkaði, sem eru ein megin ástæða þeirrar lausafjárþurrðar sem riðið hefur yfir heiminn á undanförnum misserum.