Eftir Gunnhildi Örnu Gunnarsdóttur
Tvö stærstu greiðslutryggingafyrirtæki í heimi, Euler Hermes og Atradius, tryggja ekki viðskipti erlendra birgja við íslenska viðskiptavini sína. Landið fær ekki grænt ljós á viðskipti við útlönd. Stærð og staða íslensku fyrirtækjanna skiptir því ekki máli, heldur leggjast ákvarðanirnar jafnþungt á fyrirtækin.
Þetta fullyrðir Rakel Sveinsdóttir, framkvæmdastjóri Creditinfo, sem fundaði ásamt óformlegri nefnd á vegum iðnaðarráðuneytisins í byrjun nóvember með greiðslutryggingafyrirtækjum í kjölfar bankahrunsins. Nefndin biðlaði til greiðslutryggingafyrirtækjanna um að þau lokuðu ekki á landið í heild sinni, heldur myndu meta hvert fyrirtæki fyrir sig. Þeim var vel tekið og fyrirtækið Coface tók vel í beiðnina.
„Það er erfitt nú um miðjan janúar að viðurkenna að ráðamenn hafa ekkert gert til að leysa vanda fyrirtækjanna.“ Ákvörðun greiðslutryggingafyrirtækjanna tveggja standi því óhögguð.
Greiðslutryggingafyrirtækin tvö hurfu frá því að meta stöðu hvers fyrirtækis nokkrum dögum eftir að hryðjuverkalögin voru sett á Landsbankann í Bretlandi, en þá beindist athyglin meira að efnahagsástandinu á Íslandi en ella. Þau séu ekki tilbúin til að tryggja viðskiptasamningana fyrr en þau fái að vita hvernig eigi að reisa atvinnulífið við. Afleiðingarnar séu þær að fyrirtæki hafi síðustu þrjá mánuði þurft að staðgreiða vörupantanir. Áratuga viðskiptasambönd hafi glatast.
„Þeir munu ekki opna fyrir viðskiptin meðan ekki er gripið í taumana hér heima,“ segir Rakel. „Þeir spurðu hvort vitað væri hvaða fyrirtæki yrðu skilin eftir hjá gömlu bönkunum og hvaða fyrirtækjum yrði bjargað, sem og hvað gera ætti í gengismálunum? Þeir vita sem er að hátt hlutfall erlendra lána og gengið hefur bein áhrif á innkaupin.“