Fjármálaeftirlitið hefur nú til athugunar hvort skuld sjeiks Mohamed Bin Khalifa Al Thani vegna kaupa á hlutabréfum í Kaupþingi í september sl. hafi verið gerð upp með samningi sem tryggði honum ávinning í evrum.
Samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins munu evrurnar hafa verið keyptar af honum á yfirgengi og þær síðan notaðar til þess að greiða niður lán vegna hlutabréfakaupanna. Mun Fjármálaeftirlitið vera að athuga hvort reglur hafi verið brotnar í viðskiptunum.
Fjármögnun hlutabréfakaupanna mun hafa verið með þeim hætti að tvö félög, sem skráð eru á Jómfrúreyjum, lánuðu þriðja félaginu sem fjármagnaði Q Iceland Finance ehf. sem keypti síðan bréfin í Kaupþingi. Félögin á Jómfrúreyjum fengu lán fyrir þessari fjármögnun hjá Kaupþingi með veð í bréfunum sjálfum. Annað félagið mun vera í eigu Ólafs Ólafssonar, sem var annar stærsti eigandi Kaupþings á þeim tíma, og á lán til félagsins mun hafa verið veitt án persónulegrar ábyrgðar hans.
Hitt félagið er í eigu Al-Thanis, samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins. Félag Al-Thanis mun hafa gert framvirkan gjaldeyrissamning við Kaupþing sem tryggði honum gengishagnað við uppgjör. Hagnaðurinn mun síðan hafa verið fluttur heim í gegnum útibú Kaupþings í Lúxemborg og notaður til þess að greiða skuld eignarhaldsfélags Al-Thanis við Kaupþing. Lánið mun hafa verið með persónulegri ábyrgð Al-Thanis en uppgjör þess verið með framangreindum hætti.
Ef viðskiptin voru gerð án þess að Al-Thani legði fram raunverulegt fjármagn til hlutabréfakaupanna, með þeirri áhættu sem því fylgir, má velta fyrir sér hvort tilgangur viðskiptanna hafi aðeins verið sá að efla tiltrú markaðarins á Kaupþingi. Hreiðar Már Sigurðsson, þáverandi forstjóri Kaupþings, sagði við Morgunblaðið hinn 23. september sl. að kaupin væru „mikil traustsyfirlýsing fyrir félagið.“
Viðmælandi Morgunblaðsins hjá Kaupþingi segir að ef gagnrýna megi þessi viðskipti hafi bankinn „teygt sig fulllangt í því að veita sjeiknum fyrirgreiðslu fyrir þessum viðskiptum.“ Meginatriðið sé þó það að ekki hafi farið fjármagn út úr bankanum. Bankinn hafi keypt mikið af eigin bréfum af íslenskum fjárfestum sem seld voru Al-Thani.