Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands, hefur krafist þess að bankar landsins veiti umbúðalust allar upplýsingar um svonefndar ,,eitraðar eignir" sínar, þ. e. útistandandi skuldir og eignir sem í reynd eru verðlausar.
Brown sagði Financial Times að bankarnir yrðu að leysa frá skjóðunni til að ávinna sér aftur traust almennings. Brown vildi ekki útiloka að fleiri bankar yrðu þjóðnýttir en búist er við að stjórn hans skýri í næstu viku frá nýjum aðgerðum til að ýta undir lán til stórfyrirtækja.
Hlutabréf í breska bönkunum Barclays og Royal Bank of Scotland lækkuðu í gær um nærri fjórðung og olli þetta miklum óróa og fundahöldum meðal ráðamanna landsins. Sérfræðingar sögðu að Barclays ætti við vanda að stríða vegna þess að spáð væri að bankinn ætti eftir að skýra frá mörg hundruð milljón punda tapi vegna eitraðra lána.