Bandarískur sjóðsstjóri, sem ber ábyrgð á fleiri milljónum Bandaríkjadala í eigu fjárfesta virðist hafa gufað upp en eiginkona hans hefur tilkynnt um hvarf hans. Sjóðstjórinn, Arthur Nadel, 75 ára, starfaði í Sarasota í Flórída en fjárfestar höfðu einnig samband við lögreglu þar sem fjármunir sem þeir áttu á sjóðum hjá Nadel virðast hafa horfið með honum.
Samkvæmt frétt BBC er um verulegar fjárhæðir að ræða eða nokkur hundruð milljónir dala. Mjög margir vogunarsjóðir hafa tapað umtalsverðum fjárhæðum að undanförnu vegna ástandsins á fjármálamörkuðu. Fjölskylda Nadel heyrði síðast í honum á miðvikudag og virtist hann þá vera undir miklu andlegu álagi.
Svo virðist sem bandarískir sjóðsstjórar vilji helst af öllu hverfa af yfirborði jarðar þessa dagana. Er skemmst að minnast Bernard Madoff, sem hefur verið ákærður fyrir umsvifamikil fjársvik og fyrr í vikunni reyndi kaupsýslumaðurinn Marcus Schrenker að falsa eigið andlát vegna fjármálaerfiðleika.