Helstu ráðgjafar Baraks Obama, sem tekur við embætti forseta Bandaríkjanna á morgun, segja að hin nýja ríkisstjórn muni einbeita sér að því að koma fólkinu og fyrirtækjunum í landinu til hjálpar í stað þess að horfa fyrst og fremst til þess að aðsoða bankana í landinu.
Lawrence Summers, efnahagsráðgjafi Obama, segir að áherslan verði á að reisa efnahagslíf Bandaríkjanna. Sagði hann í samtali við CBS-sjónvarpsstöðina í gær, að hann væri ósammála þeirri ákvörðun Henry Paulson, núverandi fjármálaráðherra Bandaríkjanna, að hafa varið mestu af helmingnum af 700 milljarða dollara neyðarsjóðnum, sem þingið samþykkti á síðasta ári, til að bjarga bönkunum. „Aðalatriðið er að koma lánastarfseminni til handa fyrirtækjum og heimilum í gang á ný, en það hefur ekki tekist til þessa,“ sagði hann.