Ólafur segir engan hagnað hafa runnið til sín

Ólafur Ólafsson.
Ólafur Ólafsson. mbl.is/Árni Sæberg

Ólafur Ólafsson, fjárfestir, segir í yfirlýsingu að engar þóknanir, greiðslur, eða hagnaður hafi runnið til hans í tengslum við kaup Al Thani fjölskyldunnar í Katar á hlut í Kaupþingi áður en bankinn hrundi.

Yfirlýsingin er eftirfarandi:

Vegna fréttaflutnings af kaupum Al Thani fjölskyldunnar í Qatar á hlutabréfum í Kaupþingi vil ég undirritaður, Ólafur Ólafsson, koma eftirfarandi á framfæri.

1. Vegna persónulegra tengsla minna við Al Thani fjölskylduna í Qatar var ég á sumarmánuðum ársins 2008 beðinn um að hafa milligöngu um að kynna Kaupþing beint fyrir fjölskyldunni með það að markmiði að fá þessa aðila inn sem hluthafa í Kaupþingi. Hafði ég áður á vormánuðum ársins komið að því verkefni að kynna Qatar Investment Authority fyrir bankanum.  Sú nálgun leiddi til langra og góðra viðræðna en engrar niðurstöðu.

2. Það er ljóst að á þessum tíma höfðu fjölmargir bankar og fjármálafyrirtæki um allan heim mikinn áhuga á að fá stjórnvöld í Qatar og Al Thani fjölskylduna inn sem hluthafa í sín fyrirtæki.  Bæði eykur það styrk þessara fyrirtækja og gefur þeim einnig möguleika á að fara í önnur verkefni með fjölskyldunni enda er fjölskyldan ein sú auðugasta í heimi.  Fjölskyldan velur því verkefnin af kostgæfni og ber, eins og aðrir fjárfestar, fyrst og fremst eigin hag fyrir brjósti og horfir á þá áhættu og ávinning sem viðkomandi fjárfesting hefur í för með sér.

3. Viðræðurnar við Al Thani fjölskylduna leiddu til þess að fjölskyldan, í nafni Q Iceland Finance ehf., keypti 5% hlut í Kaupþingi.  Kaupþing lánaði helming kaupverðsins beint til félags í eigu Al Thani og lagði Al Thani fram ábyrgðir að upphæð 200 milljónir evra vegna þessarra og annarra væntanlegra viðskipta.  Ég samþykkti, og hefði betur aldrei gert, að vera eigandi að félagi sem lánaði síðan hinn helminginn af kaupverðinu án persónulegra ábyrgða. Það var gert að beiðni hlutaðeigandi og til þess að ábyrgð þeirra yrði með því móti takmörkuð við 50% kaupverðs hlutabréfanna.

4. Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef, þá greiddi Al Thani fjölskyldan hinn 8. október 12,5 milljarða króna af þeim hluta lánsins sem hún var í ábyrgð fyrir og hinn 21. október hafði ég persónlega milligöngu um að greiða fyrir fjölskylduna eftirstöðvarnar með vöxtum sem þá voru 402 milljónir króna.

5. Enginn ávinningur, þóknanir eða greiðslur hafa runnið til mín eða félaga í minni eigu vegna þessara viðskipta.   Markmiðið með þátttöku minni í þeirri vegferð að fá Al Thani fjölskylduna sem hluthafa í Kaupþing var fyrst og fremst til að styrkja bankann í því umróti sem ríkti á alþjóðlegum fjármálamörkuðum.

Undirritaður telur mikilvægt að skýrsla PWC um starfsemi Kaupþings sé birt í heild sinni þannig að allur sannleikurinn komi í ljós og staðfesti það sem hér er sagt. Það virðist vera að ýmsir aðilar sjái sér hag í því að að leka út takmörkuðum og óljósum upplýsingum í þeirri von að út komi villandi fréttir. Slíkum fréttum virðist ætlað að kynda enn frekar undir ófriðarbáli í þjóðfélaginu og draga jafnframt athyglina frá undirliggjandi orsökum vandans. Þessu verður að linna og einfaldasta leiðin til þess er að birta umrædda skýrslu opinberlega sem og samsvarandi skýrslur um aðra banka."

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK